Fara yfir á efnisvæði

Áður en samningur er gerður

Neytendur eiga að fá ýmsar upplýsingar áður en samningur um fasteignalán er gerður. Þessar upplýsingar á að veita á stöðluðu eyðublaði.

Til viðbótar við staðlað eyðublað á lánveitandi að veita neytendum upplýsingar um þróun höfuðstóls og greiðslubyrði og þróun verðlags og vaxta, eftir því sem við á.

Ef lánamiðlari hefur komið að lánveitingunni á að veita skýrar upplýsingar um hann. Þannig eiga neytendur að fá upplýsingar um tengsl hans við lánveitanda og hvort lánveitandi greiði honum umboðslaun.

Þessu til viðbótar skal lánveitandi eða lánamiðlari útskýra samning um fasteignalán fyrir neytanda.

Mat á greiðslugetu

Áður en samningur um fasteignalán er gerður á lánveitandi að meta lánshæfi og greiðslugetu neytenda. Þetta er gert til að meta bæði greiðsluvilja og greiðslugetu neytanda og stuðla að ábyrgri lánveitingu svo lánveitendur séu ekki að veita neytendum lán sem þeir geta augljóslega ekki greitt til baka.

Til þess að framkvæma greiðslumat kallar lánveitandi eftir upplýsingum frá neytanda t.d. um tekjur, framfærslu, eignir og skuldir.

TIL BAKA