Fara yfir á efnisvæði

Eftirlit Neytendastofu

Neytendastofa hefur eftirlit með lögum um neytendalán. Í því felst að stofnunin fylgist með því hvort lánveitendur virði réttindi neytenda samkvæmt lögunum. Sem eftirlitsstofnun getur Neytendastofa því t.d. farið yfir hvort lánveitandi hafi veitt fullnægjandi upplýsingar um lánið og tekið á því gagnvart lánveitandanum ef það hefur ekki verið gert. Neytendastofa getur hins vegar ekki fjallað um einkaréttarlegan ágreining. Í tilfelli sem þessu gæti stofnunin af þeim sökum ekki sagt til um það hvaða afleiðingar það hafi fyrir einstaka lánssamning ef neytandanum voru ekki veittar fullnægjandi upplýsingar.

Neytendastofa getur lagt sektir á lánveitendur sem brjóta gegn lögunum.

Hvert skal leita?
Neytendastofa veitir neytendum og lánveitendum almennar upplýsingar og leiðbeiningar um réttindi neytenda og skyldur lánveitanda.

Fyrir neytanda sem telur að lánveitandi hafi brotið gegn réttindum hans getur verið gott að byrja á að hafa samband við viðkomandi lánveitanda og leita úrlausna. Ef málið leysist ekki með þeim hætti er hægt að hafa samband við Neytendastofu. Neytandinn gæti einnig þurft að fara með málið fyrir úrskurðanefnd í viðskiptum við fjármálafyrirtæki til þess að fá leyst úr fjárkröfum.

Hægt er að hafa samband við Neytendastofu í gegnum rafrænt ábendingakerfi stofnunarinnar, með því að senda tölvupóst á póstfangið: postur@neytendastofa.is eða í síma 510-1100 á símatíma, milli 9 og 12 alla virka daga.


TIL BAKA