Fara yfir á efnisvæði

Kveikjarar

Kveikjarar geta verið hættulegir í notkun og því hafa verið settar sérreglur sem miða að vernd neytenda og þær felldar inn í EES-samninginn.  Neytendastofa framfylgir reglunum hér á landi.  Reglurnar gilda um algenga kveikjara, og kveikjara sem eru með óhefðbundið útlit og líkjast oftast leikföngum eða hafa annað útlit sem er óhefðbundið fyrir eldfæri s.s. kveikjara. Ekki skiptir máli hvort um er að ræða einnota kveikjara eða kveikjara sem eru ætlaðir til áfyllingar.  Undir framangreindar reglur falla þó ekki ákveðnar tegundir kveikjara s.s. arinn- og grillkveikjarar sem framleiddir eru í samræmi við staðalinn ISO 22702 en einnig sérstaklega vandaðir kveikjarar þar sem veitt er m.a viðgerðar – og varahlutaþjónusta, sbr. nánar 2. mgr. 1. gr. í reglugerð nr. 619/2008.

Kveikjarar sem markaðssettir eru og seldir á Íslandi skulu uppfylla ákvæði um öryggi sem fram koma í reglugerð nr. 619/2008  um bann við markaðssetningu, dreifingu og sölu kveikjara án barnalæsinga og kveikjara með óhefðbundið útlit sem höfða sérstaklega til barna. Nánari kröfur eru settar fram í íslenskum stöðlum sem innleiða samhæfða evrópska staðla um kveikjara, ÍST EN 13869:2002 Barnalæsingar fyrir kveikjara – Öryggiskröfur og prófunaraðferðir og ÍST EN 9994 Kveikjarar – öryggisákvæði.

Barnalæsing - prófun á öryggi kveikjara til verndar börnum
Barnalæsing er skyldubundin á kveikjurum sem reglurnar taka til. Í því felst að einungis má selja kveikjara sem hafa verið prófaðar m.t.t. öryggis gagnvart börnum í samræmi við nánari ákvæði í reglunum. Fullnægjandi barnalæsing getur til dæmis verið stíft hjól eða takki sem þarf að ýta niður af miklu afli til þess að unnt sé að tendra eld á kveikjaranum. Í reglunum er miðað við að börn undir 51 mánaða aldri geti ekki undir neinum kringumstæðum kveikt á kveikjurum. Kveikjari sem búinn er slíku viðnámi uppfyllir því gildandi kröfur til þess að hann megi selja hér á landi og telst ekki skapa hættu fyrir börn.

Óhefðbundið útlit sem höfðar sérstaklega til barna
Börnum geta þótt kveikjarar sérstaklega spennandi ef þeir líta ekki út eins og hefðbundnir kveikjarar heldur eins og leikfang, byssa, dýr eða matur. Það sama gildir um kveikjara sem gefa frá sér hljóð, eru með blikkandi ljós, hangandi skraut eða höfða sérstaklega til barna á einhvern annan hátt. Markaðssetning á slíkum tækjum er nú einnig óheimil samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 619/2008.

Merkingar
Ákveðnar upplýsingar, leiðbeiningar og viðvaranir eiga að fylgja kveikjurum sem upplýsa um mikilvægi þess að nota kveikjarann rétt. Upplýsingarnar eiga að vera á kveikjaranum sjálfum, í meðfylgjandi bæklingi eða á umbúðum kveikjarans. Allir kveikjarar eiga að vera merktir með nafni framleiðenda eða auðkenni og með eftirfarandi viðvörunarmerkjum eða texta:


TIL BAKA