Fara yfir á efnisvæði

Ákvörðun Neytendastofu staðfest að hluta

21.03.2022

Neytendastofa taldi BPO Innheimtu hafa brotið gegn góðum viðskiptaháttum með innheimtu krafna sem tilkomnar voru vegna smálánaskulda. Í ákvörðuninni komst Neytendastofa að þeirri niðurstöðu að birting krafna í netbönkum neytenda, með öllum gjöldum og áföllnum vanskilakostnaði, áður en neytendur voru upplýstir um efni eða eiganda krafnanna bryti í bága við góða viðskiptahætti. Þá var það niðurstaða Neytendastofu að birting krafna með gjalddaga og eindaga sama dag og kröfurnar voru birtar í netbönkum neytenda þar sem kröfurnar hækkuðu umtalsvert skömmu eftir birtingu þeirra fæli í sér óréttmæta viðskiptahætti. Enn fremur var það niðurstaða Neytendastofu að tilkynning BPO Innheimtu þar sem staðhæft var að allri óvissu um lögmæti krafnanna hafi verið eytt, hafi verið villandi gagnvart neytendum. Neytendastofa bannaði félaginu að viðhafa þessa viðskiptahætti og lagði á það stjórnvaldssekt.

BPO Innheimta kærði ákvörðunina til áfrýjunarnefndar neytendamála sem nú hefur birt úrskurð sinn í málinu. Í úrskurðinum fellst áfrýjunarnefndin á afstöðu Neytendastofu um birtingu krafna í heimabanka án upplýsinga um efni og eiganda krafnanna. Áfrýjunarnefndin taldi félagið að öðru leyti ekki hafa brotið gegn góðum viðskiptaháttum við innheimtu krafnanna. Þá gerði nefndin athugasemdir við að Neytendastofa hafi ekki gætt að andmælarétti BPO Innheimtu við afgreiðslu þess hluta málsins sem snýr að staðhæfingum um að allri óvissu um lögmæti krafnanna hafi verið eytt.

Niðurstaða áfrýjunarnefndar var því sú að bann Neytendastofu væri of víðtækt og fella bæri bannið úr gildi. Þá var stjórnvaldssekt lækkuð.

Úrskurðinn má lesa í heild sinni hér. (10/2021)

TIL BAKA