Fara yfir á efnisvæði

Bílaumboðinu Öskju gert að breyta auglýsingum sínum

19.12.2017

Neytendastofu bárust ábendingar frá neytendum vegna auglýsinga Bílaumboðsins Öskju um 7 ára ábyrgð á nýjum Kia bifreiðum. Ábendingarnar snéru að því að í auglýsingunum kæmi ekki fram að til þess að njóta ábyrgðarinnar þurfi að fara með bifreiðina í reglulega þjónustuskoðun og greiða sérstaklega fyrir hverja skoðun. Neytendastofa taldi ástæðu til að skoða markaðssetninguna nánar og gerði við það tilefni einnig athugasemdir við upplýsingar í auglýsingunum sem snéru að neytendalánum.

Af hálfu Bílaumboðsins Öskju var bent á að ómögulegt væri að birta verð þjónustuskoðana í auglýsingunum því verð þeirra væri misjafnt eftir tegund bíls, aldurs og akstursmynsturs. Þá gætu eigendur bifreiðanna valið aðra þjónustuaðila til að framkvæma skoðanirnar. Því væri villandi fyrir neytendur ef tilgreindur væri kostnaður skoðananna í auglýsingunum. Hvað neytendalánin varði taldi Bílaumboðið Askja allar nauðsynlegar upplýsingar koma fram í auglýsingunum.

Neytendastofa komst að þeirri niðurstöðu að auglýsingarnar væru villandi þar sem ekki væri gerð grein fyrir því að bifreiðarnar þurfi að fara í reglulegar þjónustuskoðanir sem greiða þurfi sérstaklega fyrir. Stofnunin féllst hins vegar á það með Bílaumboðinu Öskju að villandi yrði að birta verð fyrir þjónustuskoðanirnar sem fengi ekki staðist nema í fáum tilvikum.

Þá komst Neytendastofa að þeirri niðurstöður að skilyrði um upplýsingar vegna neytendalána væru ekki uppfyllt þar sem ekki væri tilgreind sú heildarfjárhæð sem neytandi þarf að greiða.

Ákvörðunina má lesa í heild sinni hér

TIL BAKA